Landnámið
Fjórði bekkur hefur verið að læra um landnám Íslands í vetur.
Nemendur fræddust um alls konar um landnámsfólk, Íslendingasögur, öndvegissúlur, siglingar víkinga, örnefni og þá staðreynd að dýr og plöntur geta líka verið landnemar. Það vildi svo skemmtilega til að þegar þau lærðu um ísbirni og hvernig þeir geta borist til landsins með hafís, komu fréttir um akkúrat það í öllum helstu fjölmiðlum landsins! Nemendur gátu því tengt það sem þeir voru að læra við raunveruleikann. Í kjölfarið tók við umræðutími um fréttina þar sem börnin veltu fyrir sér heimspekilegum spurningum um hvað er rétt og hvað er rangt í þeirri stöðu sem kom upp með ísbjörninn. Það virðist dálítið fylgja þessum árgangi að eitthvað sem þau eru að læra um gerist í raunheimum. Í fyrra voru þau að fræðast um eldgos og jarðskjálfta á sama tíma og eldsumbrot áttu sér stað á Reykjanesinu.
Myndin er af síðu úr handritum sem nemendur unnu, þar sem þau reyndu að líkja eftir kálfskinni.